Frá: Barbara Helgadóttir
Vegna: Styrktarbeiðni til góðgerðarmála

Skilaboð:
Góðan dag ❤️

Mig langaði að athuga hvort þið í GB gallerí hafið áhuga á að gefa gjafabréf eða vöru fyrir uppboð eða happdrætti til styrktar fjölskyldu frá Akureyri?

Um er að ræða fjölskyldu sem varð fyrir því mikla áfalli í lok sumars að 13 ára sonur þeirra missti máttinn skyndilega í fótum og upp að rifbeinum. Orsökin var bólga við mænu sem er ekki vitað með vissu hvernig kom til. Drengurinn hafði hingað til verið hraustur og heilbrigður, æfði fótbolta og spilaði golf. Við tóku 5 dagar á gjörgæslu í strangri sterameðferð og lyfjagjöf. Þar á eftir barnaspítalinn og svo endurhæfing á Grensás. Grensás reyndist þeim ekki vel þar sem einungis 2 klukkutímar voru í boði á dag af endurhæfingu. Hvatningin var lítil og læknarnir og starfsfólkið gáfu mismikla von um bata.

Í kjölfarið leitaði fjölskyldan allra leiða til finna aðila sem telja sig geta hjálpað drengnum að ná fullum bata. Í september komust þau svo í samband við erlenda aðila sem síðan þá hafa unnið hafa að endurhæfingu drengsins ásamt tveimur íslenskum sjúkraþjálfurum og sinnir hann endurhæfingu hjá þeim í 4-5 klst. á hverjum einasta degi. Til viðbótar við það er ýmislegt sem þau gera svo sjálf heima til að vinna að bata og samantekið má gera ráð fyrir að hann sinni endurhæfingunni að lágmarki 8 klst. á dag.

Drengurinn er í hjólastól í dag og þarfnast aðstoðar við sumar athafnir daglegs lífs og hafa þessar aðstæður gjörbreytt lífi fjölskyldunnar. Endurhæfingin gengur vel og það eru stöðugar framfarir hjá honum. Framfarirnar koma þó í hænuskrefum, það er eitthvað sem vitað er í tilvikum líkt og hans. Stífar æfingar síðustu mánuði hafa skilað sér í því að búið er að byggja upp vöðva, þá sérstaklega á kvið, baki og einnig á fótum. Stefnan er að halda áfram að þjálfa drenginn í að standa sem gengur vel og í framhaldinu að byrja að taka fyrstu skrefin.

Öllu þessu fylgir mikill kostnaður, þau greiða erlendu aðilunum úr eigin vasa um 680 þúsund kr. á mánuði og hafa auk þess keypt ýmsan búnað til að geta sinnt sjúkraþjálfun heima.

Nú í febrúar fóru þessir erlendu aðilar til Frakklands í rúman mánuð til að halda ráðstefnur, vinnustofur og námskeið og sá fjölskyldan ekki aðra leið en að fara með þeim út til að geta viðhaldið þessari miklu og árangursríku endurhæfingu þar sem hver einasti dagur skiptir máli.

Annað foreldrið verður með honum út í Frakklandi og hitt verður heima með systrum hans en þessari ferð fylgir nokkur kostnaður í flugi, húsnæði og fl. Allan þennan tíma hafa báðir foreldrarnir verið í leyfi frá vinnu þar sem sonurinn þarf á þeirra tíma og stuðningi að halda og endurhæfingin tekur meirihluta dagsins. Það er ljóst að þó að mikill árangur hafi náðst þá er enn langt í land en þau hafa lært það að gefast aldrei upp og halda áfram að berjast fyrir velferð sonarins þar sem framtíð hans er í húfi.

Daginn fyrir flugið til Parísar, hittu þau taugalækni á barnaspítalanum sem fylgt hefur drengnum frá því að veikindin komu upp og sagðist hann „vera orðlaus“ yfir þeim framförum sem hafa orðið undanfarið sem segir allt sem segja þarf. Enda hefur drengurinn sýnt ótrúlega þrautseigju, dugnað og baráttuanda og á svo sannarlega heiðurinn af öllum þessum góða árangri.

Málefnið stendur mér nærri og mig langar virkilega til að aðstoða þessa fjölskyldu fjárhagslega með því að fá nokkur vel völd fyrirtæki með mér í lið og halda annaðhvort uppboð eða vera með happdrætti. Þau eiga skilið að öll þeirra orka fari í endurhæfinguna og að styðja við drenginn en ekki í fjárhagsáhyggjur. Margt smátt gerir eitt stórt.

Takk fyrir að lesa ❤️

Bestu kveðjur
Barbara Helgadóttir


Skilaboð frá GB Gallery (http://gbgallery.is)

GB Gallery
Ráðhústorgi 7
600 Akureyri
Sími 469 4200

Opið
Mán - fös 10:00 - 18:00
Lau 10:00 - 17:00


GBGallery © Kt 550610-1160 VSK 105210